Rómverjabréfið 15
15
Samhuga að vilja Krists
1Skylt er okkur, hinum styrku, að bera veikleikann með hinum óstyrku og hugsa ekki aðeins um sjálf okkur. 2Sérhvert okkar hugsi um náunga sinn, það sem honum er til góðs og til uppbyggingar. 3Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig heldur eins og ritað er: „Lastyrði þeirra sem löstuðu þig lentu á mér.“ 4Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu, til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa. 5En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú 6til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists.
7Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar. 8Ég segi að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs og staðfesta fyrirheitin sem gefin voru feðrunum 9en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans eins og ritað er: „Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni.“
10Og enn segir: „Fagnið, þið heiðingjar, með lýð Guðs.“
11Og enn: „Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir.“
12Og enn segir Jesaja: „Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona.“
13Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.
Starf og áform Páls
14Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um að sjálf eruð þið, góð systkin,#15.14 Orðrétt: bræður mínir. svo rík að góðgirni og auðguð alls konar þekkingu að þið eruð fær um að leiðbeina hvert öðru. 15Ég hef þó ritað ykkur, sums staðar í djarfara lagi, til þess að minna ykkur á sitthvað. Það hef ég gert af því að Guð hefur gefið mér þá náð 16að gegna heilagri þjónustu við Krist Jesú hjá heiðingjum, vera prestur fyrir fagnaðarerindi Guðs til þess að heiðingjar mættu verða Guði velþóknanleg fórn, helguð af heilögum anda.
17Það sem ég vinn til lofs í augum Guðs er verk Jesú Krists í mér. 18Ekki skal ég dirfast að nefna annað en það sem Jesús Kristur hefur unnið með mér til þess að leiða heiðingja til hlýðni. Til þess hefur hann styrkt mig til orða og verka 19með máttugum táknum og stórmerkjum í krafti heilags anda. Þannig hef ég lokið því af að boða fagnaðarerindið um Krist alla leið frá Jerúsalem og hringinn til Illýríu. 20En það hefur verið mér metnaðarmál að boða ekki fagnaðarerindið þar sem Kristur hefur þegar verið kynntur. Ég vil ekki byggja á grunni sem annar hefur lagt. 21Enda segir Ritningin: „Þeir skulu sjá hann sem enginn hafði frætt þá um og þeir skilja hann sem ekkert höfðu heyrt.“
22Því er það að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til ykkar. 23En nú á ég ekki lengur neitt ógert á þessum slóðum og mig hefur árum saman langað að koma til ykkar 24um leið og ég færi til Spánar. Ég vona að fá að sjá ykkur, er ég fer um hjá ykkur, og að þið búið mig til ferðar þangað þegar ég hef fengið að njóta samvista við ykkur um hríð. 25En nú ætla ég til Jerúsalem til að færa hjálp hinum heilögu þar. 26Því að Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu þar í borg. 27Sjálfir ákváðu þeir það enda eru þeir í skuld við þá. Fyrst heiðingjar hafa fengið hlutdeild í andlegri blessun frá þeim ber og þeim skylda til að hjálpa þeim í líkamlegum efnum. 28En þegar ég hef lokið þessu og komið þessu framlagi tryggilega í þeirra hendur ætla ég að fara um hjá ykkur á leið minni til Spánar. 29Og það veit ég að þegar ég kem til ykkar mun ég koma með blessun Krists í fullum mæli.
30Ég heiti á ykkur, systkin,#15.30 Orðrétt: bræður. vegna Drottins vors Jesú Krists og kærleiksanda hans, að hjálpa mér í stríði mínu með því að biðja fyrir mér til Guðs 31að hann bjargi mér frá þeim mönnum í Júdeu sem neita að trúa og hjálpin, sem ég fer með til Jerúsalem handa hinum heilögu þar, verði vel þegin. 32Þá get ég komið til ykkar með fögnuði og ef Guð lofar notið góðrar hvíldar með ykkur. 33Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.
Currently Selected:
Rómverjabréfið 15: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007