YouVersion Logo
Search Icon

Síðara Korintubréf 9

9
Guð elskar glaðan gjafara
1Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa ykkur 2því að ég þekki góðan vilja ykkar og hrósa mér af ykkur meðal Makedóna og segi að Akkea hefur verið reiðubúin síðan í fyrra. Áhugi ykkar hefur verið hvatning fyrir fjöldamarga. 3En bræðurna hef ég sent til þess að hrós okkar um ykkur skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni. Ég sagði að þið væruð tilbúin. 4Annars gæti svo farið að ég − að ég ekki segi þið − þyrfti að bera kinnroða fyrir þetta traust ef Makedónar skyldu koma með mér og finna ykkur óviðbúin. 5Ég taldi því nauðsynlegt að biðja bræðurna að fara á undan til ykkar og undirbúa þá gjöf ykkar sem heitin var áður svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun en ekki eins og dregin undan nöglum ykkar.
6En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. 7Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. 8Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. 9Eins og ritað er:
Hann miðlaði mildilega,
gaf hinum snauðu,
réttlæti hans varir að eilífu.
10Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. 11Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. 12Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði. 13Þegar menn sjá hvers eðlis þessi þjónusta er munu þeir lofa Guð fyrir að þið farið eftir fagnaðarerindi Krists sem þið játið og gefið með ykkur af örlæti bæði þeim og öllum. 14Og þeir munu biðja fyrir ykkur og þrá ykkur vegna þess að þeir sjá hve ríkulega Guð hefur veitt ykkur náð sína. 15Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in